Um ár ljóssins

Alþjóðlegt ár ljóssins 2015Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnt árið 2015 Alþjóðlegt ár ljóssins. Á árinu verður ýmissa merkisviðburða í sögu vísindanna minnst. Haldið verður upp á ár ljóssins út um allan heim í þeim megintilgangi að:


 • vekja fólk til vitundar um hlutverk ljóss og ljóstækni í daglegu lífi okkar og mikilvægi þeirra í mótun alþjóðasamfélags framtíðarinnar
 • stuðla að vísindalegri fræðslu með viðburðum helguðum ljósinu, sem einkum höfða til ungs fólks
 • beina athygli manna að merkum vísindauppgötvunum sem hafa sannað grundvallarþýðingu ljóssins
 • benda á mikilvægi rannsókna í ljósfræði og styðja vísindastörf á þeim sviðum
 • leggja ljóstækninni lið í þrotlausri baráttu fyrir bættum lífskjörum í þróunarlöndum
 • halda í heiðri órjúfanleg tengsl ljóss við listir og menningu og efla þátt ljóstækninnar i viðhaldi menningarverðmæta
 • stefna að því, að þessi markmið og að sá árangur sem síðan næst, lifi áfram alþjóðaárinu liðnu.

Vísindi og tækni sem fást við ljós, gegna lykilhlutverki í framþróun mannkynsins og í alþjóðlegri leit að lausnum á vandamálum í framfærslu og heilsugæslu manna. Í grunnrannsóknum allt frá öreindafræði til heimsfræði færir ljósið okkur myndir af ásýnd alheimsins og rannsóknir á eðli þess hafa leitt til byltinga á fjölmörgum sviðum vísinda og verkfræði. Ljósið sameinar allt mannlegt og hefur alla tíð verið yrkis- og rannsóknarefni myndlistar, tónlistar, bókmennta og heimspeki.

Hvers vegna árið 2015?

 • Árið 2015 er sameiginlegt 200, 150, 100 og 50 ára afmælisár nokkurra stórviðburða í sögu ljósfræðinnar:
 • Árið 1815 birti Frakkinn Augustin Fresnel rannsóknir sínar sem sýndu að ljós er bylgjuhreyfing.
 • Árið 1865 gerði Skotinn James Clerk Maxwell fræðilega grein fyrir því að ljós er rafsegulbylgjur
 • Árið 1915 tókst Þjóðverjanum Albert Einstein með Almennu Afstæðiskenningunni að sýna fram að ljósið tengir saman tíma og rúm.
 • Árið 1965 uppgötvuðu Bandaríkjamennirnir Arno Penzias og Robert Wilson með mælingum örbylgjuklið alheimsins - einskonar bergmál af Miklahvelli - sem skóp alheiminn fyrir 13,82 milljörðum árum síðan

Merkt 400 ára afmæli er einnig smíði á fyrstu frumgerð vélar knúðar af sólarorku sem Frakkanum De Caus Salomon tókst árið 1615.

Einnig er rétt að minnast 110 ára afmæli framsetningar Takmörkuðu Afstæðiskenningar Alberts Einsteins en þar sýndi hann fram á að ljóshraðinn er fasti óháður afstöðuhreyfingu viðmiðunarkerfa sem mæla hann og er sá hæsti hraði sem efnislegir hlutir geta hugsanlega hreyfst með. Einstein tókst einnig á þessu ári að sýna fram á eindaeignileika ljóss en sú uppgötvun varð síðan einn hornsteinum skammtafræöinnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is