Hvað er ljós? Fyrirlestur um furður skammtafræðinnar

Fimmtudagskvöldið 27. ágúst heldur austurríski eðlisfræðingurinn Anton Zeilinger erindi um rannsóknir sínar á furðum skammtafræðinnar, m.a. um það hvernig flytja megi ástand milli staða (það sem á ensku er nefnt teleportation) og hvernig agnir á ólíkum stöðum í heiminum geta verið samtengdar þó órafjarlægðir skilji þær að. Einnig mun hann fjalla um spurninguna sem Einstein velti fyrir sér í áratugi án þess að finna svarið við: Hvað er ljós?

Fyrirlesturinn fer fram í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands og hefst klukkan 20:00. Fyrirlesturinn er haldinn á vegum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands í tilefni af Alþjóðlegu ári ljóssins 2015.

Árið 1997 tókst Anton Zeilinger og rannsóknarhópi hans í fyrsta sinn að eyða ljóseind á einum stað og endurskapa ástand hennar á öðrum stað. Þannig var sýnt fram á að svokallaður skammtaflutningur (quantum teleportation) væri mögulegur. Árið 2012 tókst rannsóknarhópi hans að framkvæma slíkan flutning milli tveggja staða í 150 km fjarlægð hvor frá öðrum, eða frá La Palma til Tenerife.

Anton Zeilinger (f. 20. maí 1945) er austurrískur skammtafræðingur og einn fremsti tilraunaeðlisfræðingur heims. Hann er prófessor í eðlisfræði við Vínarháskóla og stýrir einnig Skammtafræðistofnun austurrísku vísindaakademíunnar. Zeilinger hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir vísindastörf sín, þar á meðal Wolf-verðlaunin í eðlisfræði (2010) og Isaac Newton verðlaunin (2007).

  • Hvað: Fyrirlestur um furður skammtafræðinnar
  • Hvenær: Fimmtudaginn 27. ágúst kl. 20:00
  • Hvar: Stofa 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is