Samspil ljóss og myrkurs og áhrif þess á samfélög á norðurslóðum

Ráðstefnan Hreyfiafl myrkurs í norðrinu í Háskóla Íslands og Norræna húsinu um helgina

Samspil lista og vísinda, myrkurs og ferðamennsku er í aðalhlutverki á alþjóðlegu ráðstefnunni Hreyfiafl myrkurs í norðrinu sem fram fer í Háskóla Íslands og Norræna húsinu 26.-28. febrúar. Um er að ræða þverfræðilegan lista- og fræðiviðburð sem er hluti af metnaðarfullri dagskrá á Alþjóðlegu ári ljóssins.

Ráðstefnan er skipulögð af Land- og ferðamálafræðistofu Háskóla Íslands, The International Laboratory for the Multidisciplinary Study of Representations of the North við Québec-háskóla í Montreal og  Listaháskóla Íslands í samvinnu við Norræna húsið í Reykjavík, Sendiráð  Kanada á Íslandi og Centre de recherche interuniversitaire sur la littérature et la culture québécoises.

„Ráðstefnan sprettur upp af áhuga á samspili ljóss og myrkurs og áhrifum þess á samfélög og menningu á norðurslóðum,“ segir Gunnar Þór Jóhannesson, dósent í ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild og einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar. „Okkur fannst mikilvægt að reyna að draga saman ólíkt fólk sem er að vinna að þessu viðfangsefni og skapa samræður þvert á fræðigreinar. Það kemur líka í ljós að myrkur birtist á margan hátt og ef til vill er það meira hreyfiafl í samfélagi okkar en við erum vön að hugsa það. Alþjóðlegt ár ljóssins ýtti svo við okkur að framkvæma þessa hugmynd á þessum tíma.“

Dagskrá ráðstefnunnar er glæsileg og fjölbreytt. „Fyrst ber að nefna þrjá aðalfyrirlesara ráðstefnunnar, þau Dr. Tim Edenson frá Manchester Metropolitan University, Harald Jónsson, myndlistarmann og stundakennara við Listaháskóla Íslands og Tiffany Ayalik sem er kanadísk sviðslistakona, sem kristalla í sjálfu sér þverfagleika viðburðarins,“ segir Gunnar.

Á ráðstefnunni er mjög fjölbreytt úrval erinda svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi að sögn Gunnars. „Þar má nefna erindi um ljósmengun í Reykjavík, kynjaða orðræðu norðurljósaferða, áhrif samspils ljóss og myrkurs á heilsu fólks og myrkurkima mannssálarinnar. Nokkrar stuttmyndir verða á dagskrá sem varpa ljósi á líf fólks á norðurhjara þar sem myrkur og ljós togast á. Ennfremur verða listaverk til sýnis í Norræna húsinu eftir íslenska og erlenda listamenn sem fanga hreyfiafl myrkurs á ólíkan hátt. Til dæmis munu þær Þorgerður Einarsdóttir og Elísabet Indra Ragnarsdóttir verða með hljóðverk um myrkur.“

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og erindi á henni má finna á heimasíðu Alþjóðlegs árs ljóssins: http://ljos2015.hi.is/hreyfiafl_myrkurs_i_nordrinu

Frekari upplýsingar veita

Gunnar Þór Jóhannesson, dósent í ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindasvið
S: 5254055

Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindasvið

S: 5254484

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is